Ferðalok

Ferðin er á enda og hefur ferðalagið verið bæði lærdómsríkt og skemmtilegt.  Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa og í raun betri en ég þorði að vona í upphafi. 

Ég fór í rannsókn til Hjartaverndar í janúar sl. enda komin á þann aldur að skynsamlegt er að láta kanna heilsufarið almennt.  Ég var mæld á alla enda og kanta þ.á.m. fitumæld, mittismálið tekið, blóðþrýstingur o.fl.  Niðurstaðan var ekki að öllu leyti til að kætast yfir því fituhlutfallið mældist 37,6% (æskileg gildi eru á bilinu 23-34).  Því var ég staðráðin í að lækka þetta hlutfall ásamt því að lækka blóðþrýstinginn sem mældist líka of hár.  Með þátttöku í "10 árum yngri á 10 vikum" gafst kjörið tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á mataræðinu og jafnframt auka hreyfinguna. Árangurinn lét ekki á sér standa.  Í lok námskeiðs hjá Hreyfingu nú í júní var ég fitumæld og reyndist þá fituhlutfallið vera komið niður í  22,7%. Það er svei mér árangur sem hægt er að hrópa húrra fyrir Smile  Ekki má heldur gleyma mittismálinu sem hefur minnkað um heila 16 sm, fór úr 86 sm í 70 sm.  Kílóin urðu svo tæpleg sjö sem fuku.  Aðeins fleiri en ég ætlaði mér, en ég get vel án þeirra verið og sakna þeirra ekki neitt!  Nú og blóðþrýstingurinn hefur lækkað þó svo enn sé hann aðeins yfir viðmiðunarmörkum.  Ég þarf því að vinna áfram í að lækka hann (sleppa t.d. salti).

En rúsínan í pylsuendanum er svo mýkri og áferðarfallegri húð.  Það ótrúlega hefur gerst að húð mín sem hefur verið óhemju þurr og viðkvæm í áratugi er núna orðin mýkri og teygjanlegri.  Fótleggirnir sem oft voru hvítflagnandi af þurrki eru núna mjúkir og húðin gljáir.  Appelsínuhúð (cellulite) hefur líka hrjáð mig (eins og svo margar konur).  Upphandleggirnir sem voru orðnir heldur kornóttir af appelsínuhúð eru nánast lausir við þann fjanda.  Áferðin á rassi og lærum hefur líka lagast mikið þó baráttan haldi áfram á þeim vígstöðvum - slagur sem lýkur líklega seint eða aldrei. 

Þessi ferð hefur því sannarlega orðið "til fjár" ef svo má að orði komast.  Ég tel mig mjög heppna að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu átaki. Ég vildi reyndar óska þess að ég hefði kynnst þessari "hugmyndafræði" fyrr á lífsleiðinni. Ég vissi svosem sitthvað um mat og næringu en hafði ekki fundið svona áhrifaríka leiðsögn við að koma mér í gegnum þá múra sem ég hafði búið mér til með slæmum matarvenjum.  Að taka út hvítan sykur, mjólkurvörur, brauð og hvítt hveiti gerði það sem gera þurfti fyrir mig.  Ég sá ekki áður að ég gæti gert ætan mat nema að nota eitthvað - helst allt - af ofangreindu.  Bókin " 10 árum yngri á 10 vikum" ásamt matreiðslubókinni "Matur sem yngir og eflir" eftir Þorbjörgu kom mér af stað við að matreiða bragðgóðan og næringarríkan mat sem lætur mér ekki bara líða betur á líkama og sál heldur líta betur út líka. Meira að segja eiginmaðurinn sem vill helst lambalæri með brúnni sósu, rabbarbarasultu og Ora grænum er farinn að kunna að meta matreiðsluna og viðurkennir að "nýi" maturinn fari vel í hann og bragðist auk þess afbragðsvel. Það er ekki svo lítill árangur - hreinn aukabónus Smile

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem fylgst hafa með mér og hinum stelpunum í átakinu fyrir áhugann og hvatningarorð. Það hefur líka skipt máli. 


"Afborgun" í sveitinni

 Síðustu tvær vikurnar hef ég verið vestur í Djúpi í “af-borgun” eins og sumir kalla það að komast út fyrir borgarmörkin í hvíld og afslöppun.   

Veðrið hefur verið gott og því hef ég reynt að hreyfa mig eins mikið úti og mögulegt er.  Hef haldið mér í aksjón með kajakróðri, æfingum á græna boltanum, armbeygjum og magaæfingum á jógadýnunni, en þar sem grindarbotnsvöðvarnir hafa sökum slappleika hafnað því að taka þátt í óþarfa hoppi þá hefur trampólínið staðið lítið notað.  En annars hefði ég getað stytt mér leið og minnkað puðið með því að drekka yngingarmjöð þann sem bruggaður er hér í sveit og seldur undir heitinu „Ellistopparinn“.  Auðvitað tómt klúður að fatta það ekki fyrr.  Hefði bara getað sopið á því seyðinu í staðinn fyrir átök við grænan bolta, árar og magaæfingar.

 

En ég fór í fyrsta köfunartímann minn í fyrradag.  Var svo ljónheppin að köfunarkennarinn var í heimsókn (tengdasonurinn) og hafði meðferðis tilheyrandi græjur og því dreif hann mig út í sjó og svo var krúsað í kafi!  Fyrirfram var ég svolítið kvíðin því ég er logandi lofthrædd (ekki vatnshrædd) og sundlar við það eitt að standa úti á svölum í smá hæð. Það sama á við um dýpi.  Það reyndi þó ekkert á alvöru dýpi í þetta sinn, við fórum bara grunnt svo ég næði tökum á köfunartækninni.  Mjög gaman. Það liggur fyrir að ég og eiginmaðurinn ætlum að dunda okkur við köfun á Seychelles-eyjum í haust.  Fyrir þá sem ekki vita þá eru Seychelleseyjar í Indlandshafi. 

 

Annars er það af græna boltanum að frétta að hann ákvað að fara aftur út í heim.  Ég leit af honum augnablik og eins og hendi væri veifað flaug hann á haf út þegar skyndilega hreyfði aðeins vind.  Nú stefndi hann á Æðey, hafði enda ekki komið þangað fyrr.  Er með bullandi útþrá.  Dóttir mín sagði hann „með einbeittan brotavilja“ eftir að hún varð að láta í minni pokann þegar hún reyndi að synda á eftir honum, en hann rak svo hratt frá landi.  Eiginmaðurinn stundi og spurði hvort hann ætti að sækja hann aftur.  Sett bát á flot og sigldi á eftir honum.  Mér fannst reyndar óþarfi að eltast meira við þann græna, ætlaði nú bara að gefa honum frelsið enda búinn að standa sína pligt með miklum ágætum.  Boltinn var handsamaður rétt utan við vitann í Æðey.  Nú er hann geymdur inni í skemmu og er hálf-vindlaus eftir tvær flóttatilraunir.  Það reynir nú á ... þó maður sé bara grænn bolti.

        

Síðustu metrarnir í átakinu

Ég keypti mér bikiní í fyrradag.  Væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að mér finnst það hreint niðurdrepandi að máta bikiní eða baðföt yfirleitt.  Veit líka að það á við um fleiri konur en mig.  En, ég ekki bara mátaði bikiní heldur keypti líka.  Og það sem meira er, ég var bara sæmilega sátt við það sem við blasti í baksýnisspeglinum.  Ég legg áherslu á lýsingarorðið "sæmilega" í þessu samhengi.  Bikiníkaupin eru að sumu leyti hugsuð sem hvatning til að taka betur á á síðustu metrunum.  Nú eru einungis tvær vikur eftir af átakinu og því er að duga eða drepast.  Ég ætla mér að geta sprangað um kinnroðalaust á þessu margumrædda bikiníi í fríinu mínu á Seychelles-eyjum í haust.

En auðvitað heldur átakið áfram í annarri mynd.  Ég tek þessum nýja lífsstíl fagnandi og það verður ekki aftur snúið.  Mér hefur ekki liðið betur líkamlega og andlega í fjöldamörg ár.  Ég hef lært að borða uppá nýtt (!) og velja mat sem gerir mér gott að innan sem utan.  Það sem mér finnst merkilegast er hversu hvítur sykur er mikill skaðvaldur og hve mikið ég hef innbyrt af honum í gegnum tíðina - sætabrauðssjúklingurinn ég.  Við það að útloka hann úr fæðinu ásamt hvítu hveiti, brauði og mjólkurvörum en borða í staðinn mikið af grænmeti, kjúklingi, feitum fiski að ógleymdum hrörfæja-, ólívu- og kókosolíu í talsverðu magni og stórum skömmtum af bætiefnum (vítamínum og steinefnum) þá er líðanin orðin eins og að framan er lýst á aðeins 8 vikum.


Ævintýri græna boltans

Þessa dagana er ég stödd á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi í stuttu sumarleyfi.  Átakið heldur áfram af fullum krafti þó svo ég sé utan alfararleiðar.  Vel birg af mat því langt er í næstu verslun en vegurinn endar í hlaðinu hjá okkur og við taka óbyggðir Jökulfjarða og Hornstranda.  En hvernig átti ég að halda mér í formi á þessum eyðistað?  Áður en við fórum úr bænum gróf ég upp stóra æfingaboltann minn fyrir "squats" æfingarnar, jógadýnuna fyrir armbeygjurnar og kviðæfingarnar og litla trampolínið fyrir fætur og kropp, sem fram að þessu höfðu aðallega safnað ryki í bílskúrnum.    

Það er fátt sem bendir til þess að sumarið sér komið hér á Snæfjallaströndinni.  Hífandi rok og 5 stiga hiti og því lítið hægt að vera úti við.  Auðvitað kjörið tækifæri til að nota græjurnar sem teknar voru með úr bænum og gera æfingarnar bara inni.  Ákvað að þurrka mesta rykið af boltanum áður en ég tæki á því.  Lagði hann frá mér utandyra sem snöggvast meðan ég náði mér í tusku, en áður en hendi var veifað var hann fokinn á haf út.  

Nú voru góð ráð dýr.  Boltalaus gat ég ekki verið í heila viku (!) Bátur var settur á flot í hvelli og ákveðið að elta boltafj..... uppi.  Þegar þarna var komið sást í kíki hvar grænn boltinn fauk eftir sjónum og stefndi að Ögri sem er hinum megin í Djúpinu.  Meðan verið var að gera bátinn kláran misstum við sjónar á honum.  Ég var ekki á því gefast upp og því rassskelltumst við hjónin um Djúpið vel á annan klukkutíma í haugasjó í leit að græna kvikindinu.  Þegar við vorum orðin blaut inn að skinni og úrkular vonar um að finna hann, komin nánast að Ögri, ákváðum við að snúa við og vorum á heimleið þegar boltinn birtist allt í einu fyrir framan bátinn.  Urðu miklir fagnaðarfundir með mér og boltanum.  Varð manninum mínum þá að orði "... hann ætti a.m.k. að vera orðinn hreinn".  Ég segi ekki að ég sofi með hann í fanginu þ.e. boltann, en hann fær ekki að fara út aftur fyrr en veðrið lægir :D 


"Föstu"dagarnir ógurlegu

Sjötta - og væntanlega erfiðasta - vikan af tíu er hálfnuð.  Safafasta sem stendur yfir í þrjá daga hófst í gær.  Gærdagurinn var heldur skrýtinn.  Mig svimaði svo í ræktinni í gærmorgun að ég var nærri hnigin niður, var samt ekki byrjuð að fasta þegar það gerðist.  Það sem eftir lifði dags var ég hálf-ringluð. 

Í morgun var ég hressari en dálítið "light-headed" samt.  Dagurinn hófst á s.k. "hreinsunarskjokki" með drykk sem vinkonur mínar í átakinu kalla "ógeðsdrykk".  Drykkurinn samanstendur af volgu vatni, Epsom salti, ólífuolíu og sítrónusafa.  Ég drakk gumsið í einum teyg og þótti það ekkert svo slæmt, hef smakkað annað verra.  Áhrifin eru hins vegar nokkuð kröftug og þarf maður að hafa salerni í a.m.k. 10 metra radíus þann daginn. Maður lifandi sér okkur fyrir fjórum nýpressuðum grænmetis- og ávaxtasöfum á dag þessa þrjá daga sem safafastan stendur yfir.  Allir mjög góðir eins og við er að búast.  Það skrýtna er að ég finn ekki til mikillar svengdar, þrátt fyrir að fá eintóman vökva í kroppinn.  Á morgun er síðast "föstu"dagurinn.  Það verður lítið mál held ég.  Ég er samt farin að hlakka til að fá fasta fæðu aftur.  Við eigum fjórar vikur eftir í átakinu og ég þarf að passa mig á að grennast ekki meira. Ég hef lést um rúmlega 4 kíló og það er bara orðið gott, í raun það sem ég stefndi að.  Nú þarf ég að styrkjast.  Það er verkefnið framundan.

Fyrirtækið Líkamslögun bauð okkur stelpunum í nokkra tíma í sogæðanudd. Við erum svo heppnar að fá tíma í sömu viku og safafastan stendur yfir. Hjálpar til við úthreinsunina. Meðferðin felst í því að n.k. ryksugubarka er rennt yfir líkamann og tilfinningin er eins og að stór munnur leggist á kroppinn og sjúgi nokkuð fast :-)  Bara nokkuð notalegt nema á þeim stöðum þar sem cellulite (appelsínuhúð) situr sem fastast. Þar eru aumir punktar.  Þetta tæki "vekur" líkamann að sögn Ellenar sem nuddaði mig í dag, það virkjar hreinsunarkerfi líkamans - sogæðakerfið -, vinnur á vöðvabólgu - sem ég fann vel fyrir í dag, styrkir húðina og síðast en ekki síst, vinnur á cellulite - þeim leiðindafjanda sem flestar konur kannast við.  Ég er auðvitað spennt að sjá hvort einhverjar breytingar verða á húðinni eftir þau fimm skipti sem í boði eru.  Kemur í ljós :-)


Púlið og maturinn

Ég fór í spinning í ræktinni í morgun.  Úff...!! Ég held að ég sé með graut í stað vöðva í lærunum.   Þrátt fyrir að keyra mig áfram eins og ég get þá næ ég ekki að fara upp í hámarkspúls þar sem sviðinn í lærunum heldur aftur af mér.  Lagast vonandi fyrr en síðar með meiri þjálfun.  Að vísu stóð ég í þeirri meiningu að ég væri bara í nokkuð góðum málum varðandi hreyfingu og líkamsrækt svona almennt.  Búin að vera nokkuð dugleg undanfarna mánuði í Tabata, en það hjálpar mér greinilega ekki nóg til að hjóla af þeim krafti sem ég vil og ætti að geta (miðað við aldur og fyrri störf .... eða þannig).   

Okkur "fimm fræknum" í átakinu var boðið í líkamsrækt hjá Hreyfingu. Flott boð sem við þáðum allar.  Ég valdi mér bikiniáskorun (fínt fyrir sumarið) og er byrjuð að púla. Spinning tímar eru semsagt partur af prógramminu.  Frábærir tímar í raun þó svo ég sé alveg að drepast (í lærunum semsagt).  Annars finnst mér tímarnir í heildina fínir og er þess fullviss að þeir muni nýtast mér vel.  Keyrslan er mjög góð en mín vegna mætti vera minni áhersla á pallavinnu þ.e. uppstig o.þ.h.

Líðanin verður betri eftir því sem lengra líður frá því ég hvarf frá því að borða sykur og nánast allt það sem inniheldur hveiti (líka heilhveiti).  Það sem kemur mér endalaust á óvart, er hversu mikið ég get borðað án þess að þyngjast.  Ég grennist frekar en þó svo kílóin séu ekki mörg þá fer ekki á milli mála að það er fita sem fer en ekki bara vatn.  Ég er aldrei svöng öfugt við það þegar ég tók skurk í megrunarmálum hér á árum áður til að taka af mér 3-5 kíló (sem sátu aðallega á rassinum og lærum).  Þá var ég sífellt svöng og vansæl, náði kanski af mér þessum kílóum en þau dúkkuðu upp aftur - eins og boðflennur skömmu síðar.  

En það verður að viðurkennast það er einn mjög stór galli við að neyta svona "sérfæðis" (lesist: næringarríkur og hollur matur).  Kostnaðurinn!  Matarkostnaðurinn hefur rokið upp við að henda út allri óhollustu og endurnýja nánast alla matvöru. Ég kaupi líka mikið af ávöxtum og grænmeti - og ég á varla orð yfir þau ósköp sem það kostar, að ég tali nú ekki um ef ég kaupi lífrænt.  Það er ansi hart að ef fram heldur sem horfir í okkar samfélagi þá verði það einungis þeir efnameiri sem geta leyft sér að borða hollan mat.  Aðrir verða að láta sér nægja ofunninn, fitandi og næringarsnauðan mat sem allir vita hvaða afleiðingar hefur.  

 


Meiri vellíðan - betra jafnvægi

Eins og flestir vita þá er það heilmikið átak að breyta rótgrónum neysluvenjum.  Ég hef komið inn á það áður í blogginu að ég hef svo lengi sem ég man eftir mér verið mikið fyrir sætindi og jafnvel sleppt mat ef eitthvað sætt freistar mín. Þrátt fyrir þessa sykurþörf og tilheyrandi kolvetnaát hef ég komist upp með að fitna lítið í gegnum tíðina og því leyft mér sitthvað í þessum efnum.  En auðvitað kemur það einhvers staðar fram þegar neytt er slæmra kolvetna í óhófi.  Ég hef lengi verið illa nærð, sífellt þreytt og orkulaus, með of háan blóðþrýsting, mjög þurra og viðkvæma húð og of hátt fituhlutfall þrátt fyrir að virðast þokkalega vel á mig komin.  Það var því löngu kominn tími til að taka mataræðið í gegn og var því kærkomið tækifæri að fá að taka þátt í þessu átaki.   

En hefur eitthvað af ofangreindu breyst á þessum þremur vikum sem liðnar er síðan átakið hófst?  Já, ég held að mér sé alveg óhætt að segja að ég merki ýmsar jákvæðar breytingar.  Húðin sýnir batamerki og er ekki eins þurr og áður, meltingin er glimrandi góð, orkan eykst hægt og bítandi og þó svo ég hafi einungis misst 1,5 kg. þá hef ég "runnið" þannig að ég kemst án harmkvæla í gallabuxurnar mínar sem legið hafa óhreyfðar í talsverðan tíma inni í skáp - mér til mikillar gleði.

.... ekki má gleyma skapinu ... mér finnst ég vera í betra jafnvægi núna en ég hef lengi verið, ég er sáttari við sjálfa mig og finnst ég vera á réttri leið.  Það er ekki svo lítið Smile


Kaffilaus í 10 daga .... og tóri enn

Mesta furða hvað ég er þrátt fyrir að hafa ekki fengið kaffibolla í heila 10 daga .... hafandi það í huga að ég hef drukkið kaffi frá því ég 5 ára (á þeim aldri drakk ég það að vísu með mjólk og miklum sykri).  En samt velti ég fyrir mér hvers vegna ég er svona utan við mig - meira en venjulega.  Geta fráhvarfseinkenni vegna koffínskorts ennþá gert vart við sig .... eftir 10 daga bindindi?  Ég er líka með hausverk alla daga og syfjuð.  Ekki þreytt, heldur grútsyfjuð þrátt fyrir sæmilegan svefn.  Lagast venjulega uppúr hádegi og orkan eykst.  Þess ber að geta að um leið og ég hætti að drekka kaffi (ég fæ mér örugglega kaffi einhvern tíma aftur ... jess!) þá tók ég út allan sykur og hvítt hveiti.  Þó ég megi borða grófkorna brauð þá hef ég hætt að borða allt brauð og mun ekki gera þessar 10 vikur. 

En, þrátt fyrir ringl og viðutanheit þá líður mér vel, ég borða vel .... mér finnst ég reyndar alltaf vera að borða  .... og ef ég er ekki að borða þá er ég að skipuleggja næstu máltíð ... og þarnæstu máltíð .....   Helsta breytingin fyrir mig í þessu átaki - fyrir utan kaffileysið - er að ég þarf að verja meiri tíma í matseldina.  Það er ekki sama fljótaskriftin á henni eins og stundum hefur viljað brenna við í önnum dagsins.  Þó er ég orðin sæmilega reynd "bak við eldavélina" eins og ágætur ráðherra orðaði það hér um árið, en ég þarf að elda öðru vísi og úr ýmsum öðrum hráefnum en ég er vön.  Ég hef prófað nokkrar uppskriftir úr matreiðslubók Þorbjargar og þær eru hver annarri betri og vel þess virði að leggja á sig aukavinna við eldamennskuna.  Kvöldin hjá mér þegar ég kem úr hesthúsinu fara þannig í að undirbúa mat fyrir næsta dag, bæði nesti í vinnuna og kvöldmatinn þann daginn, í stað þess að magalenda fyrir framan sjónvarpið eins og ég er gjörn á að gera.  Það er ágæt tilbreyting.


Ferðin er hafin .... og ekki hægt að snúa við

Jæja, fyrsta vikan í átakinu er liðin.  Það hefur í raun gengið vonum framar.  Ég get fullyrt að ég hafi sjaldan verið betur nærð en þessa viku, enda hugsa ég um mat og elda mat út í eitt.  Það er svo merkilegt að mér er ekki sama hvað ég læt ofan í mig, en þegar ég lít gagnrýnum augum á mataræðið hjá mér síðustu ár (áratugina í raun) þá er það ekkert til að hrópa húrra fyrir.  Ég elska kökur (verða að vera heimabakaðar) og hef oft sagt, og meint það, að ég get sleppt mat en stenst ekki marengstertu. Eftir að hafa lesið bókina hennar Þorbjargar "10 árum yngri á 10 vikum" þá hefur runnið upp fyrir mér ljós.  Ég er í raun sykurfíkill ... illa nærður sykurfíkill. 

Því er þátttaka í þessu átaki sem himnasending, þrátt fyrir að runnið hafi á mig tvær grímur þegar mér varð ljóst að baðfatamyndataka væri skilyrði fyrir þátttöku.  Eftir andvökunótt og miklar vangaveltur ákvað ég að láta slag standa.  Mér finnst það forréttindi að fá leiðsögn Þorbjargar í gegnum þessar tíu vikur.  Ég veit að þær verða ekki auðveldar því ég þarf að láta af ýmsum ósiðum á þeim tíma og sumir þeirra eru nánast orðnir inngrónir s.s. ótæpileg kaffidrykkja og að grípa það sem hendi er næst þegar ég verð svöng.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband