Púlið og maturinn

Ég fór í spinning í ræktinni í morgun.  Úff...!! Ég held að ég sé með graut í stað vöðva í lærunum.   Þrátt fyrir að keyra mig áfram eins og ég get þá næ ég ekki að fara upp í hámarkspúls þar sem sviðinn í lærunum heldur aftur af mér.  Lagast vonandi fyrr en síðar með meiri þjálfun.  Að vísu stóð ég í þeirri meiningu að ég væri bara í nokkuð góðum málum varðandi hreyfingu og líkamsrækt svona almennt.  Búin að vera nokkuð dugleg undanfarna mánuði í Tabata, en það hjálpar mér greinilega ekki nóg til að hjóla af þeim krafti sem ég vil og ætti að geta (miðað við aldur og fyrri störf .... eða þannig).   

Okkur "fimm fræknum" í átakinu var boðið í líkamsrækt hjá Hreyfingu. Flott boð sem við þáðum allar.  Ég valdi mér bikiniáskorun (fínt fyrir sumarið) og er byrjuð að púla. Spinning tímar eru semsagt partur af prógramminu.  Frábærir tímar í raun þó svo ég sé alveg að drepast (í lærunum semsagt).  Annars finnst mér tímarnir í heildina fínir og er þess fullviss að þeir muni nýtast mér vel.  Keyrslan er mjög góð en mín vegna mætti vera minni áhersla á pallavinnu þ.e. uppstig o.þ.h.

Líðanin verður betri eftir því sem lengra líður frá því ég hvarf frá því að borða sykur og nánast allt það sem inniheldur hveiti (líka heilhveiti).  Það sem kemur mér endalaust á óvart, er hversu mikið ég get borðað án þess að þyngjast.  Ég grennist frekar en þó svo kílóin séu ekki mörg þá fer ekki á milli mála að það er fita sem fer en ekki bara vatn.  Ég er aldrei svöng öfugt við það þegar ég tók skurk í megrunarmálum hér á árum áður til að taka af mér 3-5 kíló (sem sátu aðallega á rassinum og lærum).  Þá var ég sífellt svöng og vansæl, náði kanski af mér þessum kílóum en þau dúkkuðu upp aftur - eins og boðflennur skömmu síðar.  

En það verður að viðurkennast það er einn mjög stór galli við að neyta svona "sérfæðis" (lesist: næringarríkur og hollur matur).  Kostnaðurinn!  Matarkostnaðurinn hefur rokið upp við að henda út allri óhollustu og endurnýja nánast alla matvöru. Ég kaupi líka mikið af ávöxtum og grænmeti - og ég á varla orð yfir þau ósköp sem það kostar, að ég tali nú ekki um ef ég kaupi lífrænt.  Það er ansi hart að ef fram heldur sem horfir í okkar samfélagi þá verði það einungis þeir efnameiri sem geta leyft sér að borða hollan mat.  Aðrir verða að láta sér nægja ofunninn, fitandi og næringarsnauðan mat sem allir vita hvaða afleiðingar hefur.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þetta, þið eruð að standa ykkur rosalega vel.  Það væri nú gaman að sjá hvað þið eruð að borða, birta td. hluta úr matardagbókum því maður er alltaf í vandræðum hvað maður á að borða.  Það vill verða alltaf það sama einhvern veginn, td hvað kemur í staðinn fyrir brauð, mér finnst erfitt að sleppa brauði.  

sigga (IP-tala skráð) 30.5.2011 kl. 16:24

2 Smámynd: Anna Dóra Guðmundsdóttir

Sæl Sigga og takk fyrir hlý orð.  Ég hef ekki heimild til að birta uppskriftir úr bókunum.   Ég get hins vegar bent á uppskriftir sem ég hef farið eftir og líkað vel.  Ég skal koma meira inn á það í næsta bloggi.  Varðandi mataraæðið almennt þá borða ég mjög fjölbreyttan mat, kjöt og fisk, og ótrúlegt en satt, talsverðarar fitu í formi olía og mikið af ávöxtum og berjum.  Matartilbúningurinn krefst talsvert meiri vinnu en áður.  Munurinn felst aðallega í því að ég þarf að undirbúa nestið í vinnuna auk þess sem innihald uppskriftanna er mjög fjölbreytt. 

kv/Anna Dóra

Anna Dóra Guðmundsdóttir, 30.5.2011 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband