"Föstu"dagarnir ógurlegu

Sjötta - og væntanlega erfiðasta - vikan af tíu er hálfnuð.  Safafasta sem stendur yfir í þrjá daga hófst í gær.  Gærdagurinn var heldur skrýtinn.  Mig svimaði svo í ræktinni í gærmorgun að ég var nærri hnigin niður, var samt ekki byrjuð að fasta þegar það gerðist.  Það sem eftir lifði dags var ég hálf-ringluð. 

Í morgun var ég hressari en dálítið "light-headed" samt.  Dagurinn hófst á s.k. "hreinsunarskjokki" með drykk sem vinkonur mínar í átakinu kalla "ógeðsdrykk".  Drykkurinn samanstendur af volgu vatni, Epsom salti, ólífuolíu og sítrónusafa.  Ég drakk gumsið í einum teyg og þótti það ekkert svo slæmt, hef smakkað annað verra.  Áhrifin eru hins vegar nokkuð kröftug og þarf maður að hafa salerni í a.m.k. 10 metra radíus þann daginn. Maður lifandi sér okkur fyrir fjórum nýpressuðum grænmetis- og ávaxtasöfum á dag þessa þrjá daga sem safafastan stendur yfir.  Allir mjög góðir eins og við er að búast.  Það skrýtna er að ég finn ekki til mikillar svengdar, þrátt fyrir að fá eintóman vökva í kroppinn.  Á morgun er síðast "föstu"dagurinn.  Það verður lítið mál held ég.  Ég er samt farin að hlakka til að fá fasta fæðu aftur.  Við eigum fjórar vikur eftir í átakinu og ég þarf að passa mig á að grennast ekki meira. Ég hef lést um rúmlega 4 kíló og það er bara orðið gott, í raun það sem ég stefndi að.  Nú þarf ég að styrkjast.  Það er verkefnið framundan.

Fyrirtækið Líkamslögun bauð okkur stelpunum í nokkra tíma í sogæðanudd. Við erum svo heppnar að fá tíma í sömu viku og safafastan stendur yfir. Hjálpar til við úthreinsunina. Meðferðin felst í því að n.k. ryksugubarka er rennt yfir líkamann og tilfinningin er eins og að stór munnur leggist á kroppinn og sjúgi nokkuð fast :-)  Bara nokkuð notalegt nema á þeim stöðum þar sem cellulite (appelsínuhúð) situr sem fastast. Þar eru aumir punktar.  Þetta tæki "vekur" líkamann að sögn Ellenar sem nuddaði mig í dag, það virkjar hreinsunarkerfi líkamans - sogæðakerfið -, vinnur á vöðvabólgu - sem ég fann vel fyrir í dag, styrkir húðina og síðast en ekki síst, vinnur á cellulite - þeim leiðindafjanda sem flestar konur kannast við.  Ég er auðvitað spennt að sjá hvort einhverjar breytingar verða á húðinni eftir þau fimm skipti sem í boði eru.  Kemur í ljós :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband