Ævintýri græna boltans

Þessa dagana er ég stödd á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi í stuttu sumarleyfi.  Átakið heldur áfram af fullum krafti þó svo ég sé utan alfararleiðar.  Vel birg af mat því langt er í næstu verslun en vegurinn endar í hlaðinu hjá okkur og við taka óbyggðir Jökulfjarða og Hornstranda.  En hvernig átti ég að halda mér í formi á þessum eyðistað?  Áður en við fórum úr bænum gróf ég upp stóra æfingaboltann minn fyrir "squats" æfingarnar, jógadýnuna fyrir armbeygjurnar og kviðæfingarnar og litla trampolínið fyrir fætur og kropp, sem fram að þessu höfðu aðallega safnað ryki í bílskúrnum.    

Það er fátt sem bendir til þess að sumarið sér komið hér á Snæfjallaströndinni.  Hífandi rok og 5 stiga hiti og því lítið hægt að vera úti við.  Auðvitað kjörið tækifæri til að nota græjurnar sem teknar voru með úr bænum og gera æfingarnar bara inni.  Ákvað að þurrka mesta rykið af boltanum áður en ég tæki á því.  Lagði hann frá mér utandyra sem snöggvast meðan ég náði mér í tusku, en áður en hendi var veifað var hann fokinn á haf út.  

Nú voru góð ráð dýr.  Boltalaus gat ég ekki verið í heila viku (!) Bátur var settur á flot í hvelli og ákveðið að elta boltafj..... uppi.  Þegar þarna var komið sást í kíki hvar grænn boltinn fauk eftir sjónum og stefndi að Ögri sem er hinum megin í Djúpinu.  Meðan verið var að gera bátinn kláran misstum við sjónar á honum.  Ég var ekki á því gefast upp og því rassskelltumst við hjónin um Djúpið vel á annan klukkutíma í haugasjó í leit að græna kvikindinu.  Þegar við vorum orðin blaut inn að skinni og úrkular vonar um að finna hann, komin nánast að Ögri, ákváðum við að snúa við og vorum á heimleið þegar boltinn birtist allt í einu fyrir framan bátinn.  Urðu miklir fagnaðarfundir með mér og boltanum.  Varð manninum mínum þá að orði "... hann ætti a.m.k. að vera orðinn hreinn".  Ég segi ekki að ég sofi með hann í fanginu þ.e. boltann, en hann fær ekki að fara út aftur fyrr en veðrið lægir :D 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahah ævintýrið með boltann ;)

Íris (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 13:49

2 identicon

Vá, dugnaðurinn að gefast ekki upp! :O)

Fríða (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 19:39

3 identicon

Sæl Anna Dóra.. Gaman að lesa hvernig þér gengur.. Mér þætti gaman að vita hvar þið funduð boltann... :)

Ingibjörg Alexía (úr Æðey) (IP-tala skráð) 17.6.2011 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband