"Afborgun" í sveitinni

 Síðustu tvær vikurnar hef ég verið vestur í Djúpi í “af-borgun” eins og sumir kalla það að komast út fyrir borgarmörkin í hvíld og afslöppun.   

Veðrið hefur verið gott og því hef ég reynt að hreyfa mig eins mikið úti og mögulegt er.  Hef haldið mér í aksjón með kajakróðri, æfingum á græna boltanum, armbeygjum og magaæfingum á jógadýnunni, en þar sem grindarbotnsvöðvarnir hafa sökum slappleika hafnað því að taka þátt í óþarfa hoppi þá hefur trampólínið staðið lítið notað.  En annars hefði ég getað stytt mér leið og minnkað puðið með því að drekka yngingarmjöð þann sem bruggaður er hér í sveit og seldur undir heitinu „Ellistopparinn“.  Auðvitað tómt klúður að fatta það ekki fyrr.  Hefði bara getað sopið á því seyðinu í staðinn fyrir átök við grænan bolta, árar og magaæfingar.

 

En ég fór í fyrsta köfunartímann minn í fyrradag.  Var svo ljónheppin að köfunarkennarinn var í heimsókn (tengdasonurinn) og hafði meðferðis tilheyrandi græjur og því dreif hann mig út í sjó og svo var krúsað í kafi!  Fyrirfram var ég svolítið kvíðin því ég er logandi lofthrædd (ekki vatnshrædd) og sundlar við það eitt að standa úti á svölum í smá hæð. Það sama á við um dýpi.  Það reyndi þó ekkert á alvöru dýpi í þetta sinn, við fórum bara grunnt svo ég næði tökum á köfunartækninni.  Mjög gaman. Það liggur fyrir að ég og eiginmaðurinn ætlum að dunda okkur við köfun á Seychelles-eyjum í haust.  Fyrir þá sem ekki vita þá eru Seychelleseyjar í Indlandshafi. 

 

Annars er það af græna boltanum að frétta að hann ákvað að fara aftur út í heim.  Ég leit af honum augnablik og eins og hendi væri veifað flaug hann á haf út þegar skyndilega hreyfði aðeins vind.  Nú stefndi hann á Æðey, hafði enda ekki komið þangað fyrr.  Er með bullandi útþrá.  Dóttir mín sagði hann „með einbeittan brotavilja“ eftir að hún varð að láta í minni pokann þegar hún reyndi að synda á eftir honum, en hann rak svo hratt frá landi.  Eiginmaðurinn stundi og spurði hvort hann ætti að sækja hann aftur.  Sett bát á flot og sigldi á eftir honum.  Mér fannst reyndar óþarfi að eltast meira við þann græna, ætlaði nú bara að gefa honum frelsið enda búinn að standa sína pligt með miklum ágætum.  Boltinn var handsamaður rétt utan við vitann í Æðey.  Nú er hann geymdur inni í skemmu og er hálf-vindlaus eftir tvær flóttatilraunir.  Það reynir nú á ... þó maður sé bara grænn bolti.

        

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband