Kaffilaus í 10 daga .... og tóri enn

Mesta furða hvað ég er þrátt fyrir að hafa ekki fengið kaffibolla í heila 10 daga .... hafandi það í huga að ég hef drukkið kaffi frá því ég 5 ára (á þeim aldri drakk ég það að vísu með mjólk og miklum sykri).  En samt velti ég fyrir mér hvers vegna ég er svona utan við mig - meira en venjulega.  Geta fráhvarfseinkenni vegna koffínskorts ennþá gert vart við sig .... eftir 10 daga bindindi?  Ég er líka með hausverk alla daga og syfjuð.  Ekki þreytt, heldur grútsyfjuð þrátt fyrir sæmilegan svefn.  Lagast venjulega uppúr hádegi og orkan eykst.  Þess ber að geta að um leið og ég hætti að drekka kaffi (ég fæ mér örugglega kaffi einhvern tíma aftur ... jess!) þá tók ég út allan sykur og hvítt hveiti.  Þó ég megi borða grófkorna brauð þá hef ég hætt að borða allt brauð og mun ekki gera þessar 10 vikur. 

En, þrátt fyrir ringl og viðutanheit þá líður mér vel, ég borða vel .... mér finnst ég reyndar alltaf vera að borða  .... og ef ég er ekki að borða þá er ég að skipuleggja næstu máltíð ... og þarnæstu máltíð .....   Helsta breytingin fyrir mig í þessu átaki - fyrir utan kaffileysið - er að ég þarf að verja meiri tíma í matseldina.  Það er ekki sama fljótaskriftin á henni eins og stundum hefur viljað brenna við í önnum dagsins.  Þó er ég orðin sæmilega reynd "bak við eldavélina" eins og ágætur ráðherra orðaði það hér um árið, en ég þarf að elda öðru vísi og úr ýmsum öðrum hráefnum en ég er vön.  Ég hef prófað nokkrar uppskriftir úr matreiðslubók Þorbjargar og þær eru hver annarri betri og vel þess virði að leggja á sig aukavinna við eldamennskuna.  Kvöldin hjá mér þegar ég kem úr hesthúsinu fara þannig í að undirbúa mat fyrir næsta dag, bæði nesti í vinnuna og kvöldmatinn þann daginn, í stað þess að magalenda fyrir framan sjónvarpið eins og ég er gjörn á að gera.  Það er ágæt tilbreyting.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er til líf án kaffis !! :) þótt undarleget megi virðast. Og virðist ganga vel hjá þér. Og já, það er hægt að finna fyrir fráhvarfseinkennum allt í fleiri vikur eftir dygga trú við þennan drykk...og aðra koffeín ríka drykki. Kaffi sopinn er góður, viðurkenni ég það fyrst af öllum. Og einn góður kaffibolli á dag er alls ekkert óhollt, frekar þvert á móti. En þegar þeir eru komnir upp í bæði 4, 5 og jafnvel fleiri daglega fer líkaminn að bregðast við með streitu einkennum og adrenalínið hefur áhrif á m.a. glúkósaefnaskiftin. Þetta hefur áhrif á bæði orkumyndun, blóðþrýsting, fitumyndun og fleira ekki sérlega heppilegt. Vel af sér vikið að alveg að sleppa því í þessar 10 vikur og svo getum við alltaf talað um það aftur þegar þú stjórnar því sjálf en ekki lætur kaffið stjórna þér.

You go girl !!

Kærar kveðjur

Þorbjörg

Þorbjörg (IP-tala skráð) 23.5.2011 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband